Fjarðabyggð er 10. fjölmennasta sveitarfélag landsins - felur í sér Neskaupstað, Eskifjörð og Reyðarfjörð. Að ekki sé minnst á Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Mjóafjörð.
Stefán Þór Eysteinsson oddviti hins félagshyggjusinnaða Fjarðalista í Fjarðabyggð kljáðist við heldur umfangsmikið hliðarverkefni í aðdraganda nýliðinna sveitarstjórnarkosninga; sambýliskona hans Freyja Viðarsdóttir var komin að barnsburði og von var á tíðindum á hverri stundu.
„Kosninganóttina sjálfa var Freyja bara með samdrætti. Ég átti alveg eins von á að hún kæmi þá á kosningavökunni, eiginlega. En hún ákvað að bíða með þetta þar til á mánudaginn,“ segir Stefán í samtali við fréttastofu og Freyja bætir við: „Mjög tillitssöm stelpa greinilega.“
Fréttastofa ræddi stuttlega við foreldrana og barnið í kvöldfréttum Stöðvar 2, sem má sjá hér að ofan.
Íhugaði að fela símann
Meirihluti Fjarðalistans með Framsóknarflokknum hélt þótt Sjálfstæðisflokkur sé stærsti flokkurinn og í hönd fóru meirihlutaviðræður Framsóknar og Fjarðalistans í þessu fimm þúsund manna sveitarfélagi.

„Það er búið að vera smá púsluspil að ná þessum fundum saman en það eru allir búnir að vera mjög tillitsamir við okkur í þessu. Og svo er Freyja búin að vera ævintýralega skilningsrík í þessu. En það hafa já allir sýnt þessu mikinn skilning,“ segir Stefán.
Að mestu leyti mikinn skilning, það er að segja: „Ég var alveg tvisvar búin að íhuga að fela símann, það var alveg kominn sá tímapunktur,“ segir Freyja.
Allir flokkar stefna í sömu átt í Fjarðabyggð
Foreldrunum hafa borist hamingjuóskir þvert á flokka, ekki að undra, á minni svæðum sem þessum eru allir aðeins meiri vinir en á stærri svæðum, segir Stefán. sem má vera að sé í ætt við að öllu meiri sátt virðist ríkja um stjórnmálin á minni svæðum, eins og Stefán lýsir.
„Við erum öll að stefna í sömu átt og átökin eru ekki mikil, enda er það í raun óþarfi,“ segir Stefán.
En aftur að því sem máli skiptir. Er komið nafn? „Ekki enn þá. Við erum að máta nokkur nöfn,“ segir Stefán. Freyja: „Ég held að það sé meiri ósætti þar en í kosningunum."
Á höfuðborgarsvæðinu eru málin í meiri hnút en í Fjarðabyggð – þar hefur lítið hreyfst í viðræðum, en þreifingar halda að sjálfsögðu áfram. Í Mosfellsbæ var í dag sagt frá því að Vinir Mosfellsbæjar eru úr leik í meirihlutaviðræðunum, Framsókn, Viðreisn og Samfylking halda áfram að tala saman.