Viðræður í Reykjavík vegna myndun nýs meirihluta í borgarstjórn eru ennþá á því stigi að kallast óformlegar þreifingar flokka á milli.
Viðmælendur fréttastofu segja ekkert nýtt að frétta af þeim bænum í dag. Allir flokkar, utan VG, gefa það enn út að stefnan sé að komast í formlegar meirihlutaviðræður.
Ýmsir möguleikar eru í stöðunni, eins og farið hefur verið yfir, og Framsóknarflokkurinn með sína fjóra fulltrúa oftar en ekki sagður vera í lykilstöðu þegar kemur að myndun meirihluta.
Þessu er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ekki endilega sammála, en hann ræddi við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær um stöðuna í borginni.
„Ég er ekki alveg sammála þessari greiningu sem oft er sett fram að Framsókn sé í svona gríðarlegri mikilli lykilstöðu. Jú, ég veit að það er erfitt að mynda meirihluta án Framsóknar vegna þess að það eru engar líkur á því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin fari saman,“ sagði Baldur.
Margt hafi breyst með yfirlýsingu forsvarmanna Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar um að þau ætli að fylgjast að, til að byrja með.
„Þau settu Framsókn dálítið út í horn með því. Vegna þess að Framsókn getur ekki, ef hún gengur ekki til viðræðna við þessa flokka og myndar meirihluta, hún getur ekki snúið sér að Sjálfstæðisflokki,“ sagði Baldur og vísað til þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu aðeins tíu fulltrúa, ellefu með Flokki fólksins. Tólf fulltrúa þarf til að mynda meirihluta og Sósíalistar hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

„Þess vegna vil ég segja. Það er frekar Viðreisn sem er í sterkri stöðu, heldur en Framsókn,“ sagði Baldur og vísaði til orða Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, um að Viðreisn útiloki ekki neitt.
„Hún getur slitið sig frá, eins og Þórdís Lóa er búin að ýja að hún gæti gert ef þetta gengur ekki upp, og farið þá að tala við Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Flokk fólksins,“ sagði Baldur en hlusta má allt viðtalið við hann hér að ofan.