Skoðun

Ekki leita dýrt yfir ódýrt - Leysum frekar umferðarvandann strax

Jóhannes Loftsson skrifar

Samgöngusáttmálinn sem kynntur var árið 2018, var einstætt tímamótasamkomulag þar sem háar fjárhæðir voru eyrnamerktar risaframkvæmdum sem margar voru þá enn á slíku hugmyndastigi að fáir vissu í raun um hvað var verið að semja.

Tökum Miklubrautarstokkinn sem dæmi. Grafa á 10 metra djúpan skurð í hverfi sem endar nafnið á “mýri” og röskun á grunnvatnsstöðu gæti mögulega skemmt aðliggjandi byggingar. Í síðustu Miklubrautarframkvæmd fóru umferðartafir við Klambratún algjörlega úr böndunum og nú á að fara í aðra framkvæmd á sama stað sem verður a.m.k. 50 sinnum dýrari. Að mörgu leiti svipar verkefninu meira til fasteignaþróunarverkefnis, því til stendur að byggja blokkir yfir og kringum stokkinn. Megnið af þeim óbeina kostnaði sem tengist þessu er ekki innifalinn og margar aðvörunarbjöllur klingja að margfalt framúrkeyrsluverkefni gæti verið að fæðast.

Nú mætti búast við því að mikill ávinningur kæmi af svo dýrri framkvæmd. Þegar nánar er að gáð er þó aðeins verið að laga umferðina á tveimur ljósagatnamótum og við báða enda stokksins taka við umferðarljós. Eftir framkvæmdina gætu ökumenn því allt eins endað í stífluðum illa loftræstum stokk með tóma vasa.

Til stendur að fjármagna samgöngusáttmálann með lóðasölu og vegsköttum. Til að það sé hægt, gæti reynst nauðsynlegt að viðhalda háu fasteignaverði og hætt er við að vegskattarnir muni vara um langa framtíð. Dæmin erlendis sanna það.

Ódýru lausnirnar eru fljótlegastar

Lykillinn að því að laga umferðina hratt er að framkvæmdum sé forgangsraðað eftir gagnsemi. Vega og meta þarf hverja einustu krónu miðað við það gagn sem hún skilar í að bæta umferðarflæðið. Þá eru það ekki endilega stærstu verkefnin sem fengju mest vægi, heldur líka litlar fljótlegar framkvæmdir sem kalla á lítið rask.

Fljótlegasta aðferðin til að bæta umferðarflæðið væri með bættri umferðarstýringu. Í dag eru of mörg ljós á Miklubrautinni til að slík stýring virki vel. Skipta þarf út öllum stökum gönguljósum með göngubrúm til að gera slíka stýringu mögulega svo flæðið komi aftur. Þannig má fyrir litla upphæð strax ná miklum árangri strax.

Margar aðrar álíka minni lausnir má eflaust finna út um allan bæ, en þær komast ekki á áætlun meðan skynsamlegu kerfi fyrir forgangsröðun vantar.

Samgönguása fyrir alla

Til lengri tíma þarf líka að huga að stærri verkefnum. Áður fyrr voru öll verkefni arðsemismetin og í áætlun Vegagerðinnar árið 2003, var kannað hvað kostaði að breyta öllum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut í mislæg. Kostnaðurinn reyndist svipaður og nú er áætlað að eyða í Miklubrautastokkinn einan.

Slíkar framkvæmdir sem laga umferðarflæðið munu gagnast öllum, bæði einkabíl og strætó. Megin röksemdin fyrir borgarlínunni mundi hverfa ef þessir hnútar eru lagaðir, því það þarf enginn forgang í umferð sem flæðir hindranalaust. Bestu samgönguásar í Reykjavík eru þegar komnir, en til að þeir virki þarf að byrja að verja umferðarflæðið. Nýr borgarlínuumferðarás er óþörf sóun á landi og vegafé, sem mun tefja aðrar þarfari framkvæmdir.

Viðeyjarleiðin er framtíðin

Ein öflugasta samgöngutenging sem hægt er að ráðast í á höfuðborgarsvæðinu liggur í gegnum Viðey. Með því að tengja eyjuna landi við Laugarnes (gegnum botngöng) við Gufunes (gegnum landfyllingu) og við Kjalarnessvæði (gegnum hefðbundin göng) verður til samgöngutenging sem í senn leysir vanda Sæbrautar og hluta Miklubrautar og styttir ferðatímann úr bænum um 20 mínútur. Ekkert mál væri að fjármagna þessa framkvæmd á sama hátt og Hvalfjarðargöngin með notkunargjöldum, því hagkvæmnin er slík að notendur myndu hagnast á hverri ferð.

Tími alvöru lausna er kominn

Ábyrg framtíð (x Y) er nýtt stjórnmálaafl sem vill hafna samgöngusáttmálanum, áður en hann leiðir til hærra fasteignaverðs og varanlegra vegskatta. Með alvöru lausnum má leysa umferðarvandamálin strax á mun hagkvæmari hátt.

Höfundur er verkfræðingur og oddviti Ábyrgrar framtíðar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×