Aðgerðirnar hófust í gærmorgun og stóðu yfir við vatnið fram á kvöld. Þær gengu vel og fór allt samkvæmt áætlun.
Fréttastofa var á svæðinu í gær og ræddi við viðbragðsaðila eftir að fyrstu lotu aðgerðarinnar var lokið og búið var að draga flugvélina inn á grynnra svæði í vatninu.
„Núna er rannsóknarvinna í gangi - verið að ljósmynda og taka út fatnað og annað sem tilheyrir þeim sem voru um borð í vélinni,“ sagði Þröstur Egill Kristjánsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni.

Þegar því var lokið var vélin loks hífð upp á yfirborðið og var hún komin á þurrt land rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi.
Óvenjuleg rannsókn
Nú tekur Rannsóknarnefnd samgönguslysa við flaki hennar og reynir að varpa ljósi á tildrög slyssins.
„Við vonum að það séu um borð rafeindatæki sem við getum notað til að varpa ljósi á það hvað átti sér stað inni í flugvélinni. Það geta til dæmis verið símar, myndavélar og annað, hugsanlega staðsetningartæki og svo einnig búnaður flugvélarinnar,“ segir Ragnar Guðmundsson stjórnandi rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Hann segir margt óljóst í rannsókninni en telur að með rannsókn á flakinu verði hægt að upplýsa það sem gerðist.
„Þessi ákveðna rannsókn er svolítið óvenjuleg að því leyti að nú komumst við ekki í flugvélina í tvo og hálfan mánuð nema að skoða hana með neðarsjávarkafbát að utan. Það hefur svona gefið okkur vissar vísbendingar en okkur vantaði sem sagt að fá flugvélina og rannsaka hana mun ítarlegar til að reyna að komast að orsökum slyssins,“ sagði Ragnar.
Það getur tekið nokkra mánuði, jafnvel upp í tvö, þrjú ár fyrir stofnunina að gefa út lokaskýrslu um flugslys hér á landi.