Sífellt fleiri tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu en frá árinu 2015 hefur slíkum tilkynningum fjölgað um þriðjung samkvæmt nýrri skýrslu. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir ýmsar ástæður fyrir því.
„Umræðan um þessi mál er mun opinskárri en áður. Þá kemur stuðningur frá sveitarfélagi við þolendur og fjölskyldur þeirra og lögregla vinnur málin dýpra en áður. Nú er vettvangur fyrir slík mál á síðu 112.is og við fórum í vitundavakningu sem hefur skilað heilmiklum árangri,“ segir Sigríður.
Það að tilkynningum fjölgi þurfi því ekki endilega að þýða að ofbeldið sé að aukast.
„Það er t.d. mikið jafnrétti á Norðurlöndum samanborið við önnur lönd en á sama tíma er mikill fjöldi kvenna sem verður fyrir heimilisofbeldi. Það þarf ekki að þýða að þar séu fleiri ofbeldismál heldur er meiri meðvitund og skilningur í þessum löndum en víða annars staðar varðandi þessi mál,“ segir Sigríður.
Alls komu upp 21 manndrápsmál á árunum 2010-2020 þar sem 24 einstaklingar týndu lífi. Í ríflega helmingi málanna var gerandi fjölskyldumeðlimur.
„Þetta sýnir að heimilisofbeldi er eitt alvarlegasta málefni sem lögregla fæst við hverju sinni. það er gríðarlega mikilvægt að grípa sem fyrst inn í því málin verða oft alvarlegri eftir því sem ofbeldið varir lengur,“ segir Sigríður.
Sigríður telur þó stöðu kvenna almennt hafa batnað gríðarlega þegar kemur að heimilisofbeldi.
„Umræðan um þessi mál er allt önnur en áður, úrræðin eru fleiri og kerfið tekur mun alvarlegra á þessum málum en bara fyrir einhverjum árum síðan,“ segir Sigríður.