Innlent

Aldís og Guðrún eru lambadrottningarnar í Skarði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Anna Sigríður í Skarði með lambadrottningarnar, systurnar Aldísi og Guðrúnu, sem komu í heiminn sunnudaginn 20. mars.
Anna Sigríður í Skarði með lambadrottningarnar, systurnar Aldísi og Guðrúnu, sem komu í heiminn sunnudaginn 20. mars. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Gimbrarnar Aldís og Guðrún eru lambadrottningar á bænum Skarði í Landsveit en þær komu í heiminn í gær þegar það var vorjafndægur. Skarð er stærsta fjárbú á Suðurlandi með um ellefu hundruð fjár. Um átján hundruð og fimmtíu lömb munu fæðast á bænum í vor.

Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði var að rýja á fullum krafti í gær, ásamt félaga sínum frá Næfurholti. Það tekur fjóra daga að rýja allar kindurnar á bænum. Sauðburðurinn á ekki að byrja alveg strax en ærin Hilda var eitthvað að drífa sig og hafði borið tveimur lömbum í gærmorgun þegar fjölskyldan í Skarði kom út í fjárhús. Heimasætunni á bænum þykir nú ekki leiðinlegt að vera búin að fá lömb en hún á nokkrar kindur í fjárhúsinu.

„Já, þær heita Sandra og Anna Hildur og svo á ég þrjár forystuær en þær heita Kanna, Panna og Skeið,“ segir Anna Sigríður Erlendsdóttir, 9 ár í Skarði. Hún er harðákveðin að verða bóndi þegar hún verðu stór. „Já, sauðfjárbóndi,“ segir hún án þess að hika.

Aldís að fá sér að drekka hjá mömmu sinni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um 1100 fjár eru í Skarði en búið er það stærsta á Suðurlandi þegar sauðfé er annars vegar. Reiknað er með að um 1850 lömb fæðist í fjárhúsinu í vor en búið er að sónarskoða ærnar og telja í þeim. Bændurnir í Skarði eru þau Guðlaug Berglindi Guðgeirsdóttir og Erlendur Ingvarsson. Börnin þeirra eru Sumarliði 15 ára, Helga Fjóla er 12 ára og Anna Sigríður 9 ára eins og áður segir.

Anna Sigríður er alveg ákveðin í að vera sauðfjárbóndi þegar hún verður fullorðin og verður farin að búa.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×