Tvíburabræðurnir frá Sandfellshaga eru meðal viðmælenda í þættinum Um land allt á Stöð 2 um Kópasker, þeim síðari af tveimur um samfélagið í Öxarfirði.

Þorpið er þjónustumiðstöð og eina þéttbýli héraðsins, með Fjallalamb og fiskeldi Samherja sem stærstu vinnustaði íbúanna. Uppbygging seiðaeldis Rifóss í útjaðri Kópaskers hefur hleypt nýjum krafti í byggðina jafnframt því sem landeldi Samherja í sveitinni er að stækka. Rifós byggir einnig upp seiðastöð í Kelduhverfi.
„Við verðum að hjálpast að, Öxfirðingar. Og ég er ekki bara að tala um Kópaskersbúa. Ég er líka að tala um Öxfirðinga og Keldhverfunga. Við verðum einhvernveginn að hjálpast að við að búa til og halda við góðu samfélagi,“ segir Pétur Þorsteinsson, fyrrverandi skólastjóri á Kópaskeri.

„Vegna þess að það eru miklar framkvæmdir á döfinni og fólk vill gjarnan setjast að í þessu fagra héraði, þá er okkur brýn nauðsyn að byggja hér upp samfélag, að missa þetta ekki út í það að verða vinnubúðir, verbúðir, eins og ég óttast ef við byggjum ekki þorpið upp. Þá sitjum við uppi með einhverskonar verbúðasystem,“ segir Pétur.
Þátturinn um Kópasker er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.15. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: