Eins og fréttastofa hefur greint frá undanfarið eru margir íbúar á Suðurnesjum gríðarlega óánægðir með þjónustu HSS.
Þar kvarta þeir helst undan því að rangar greiningar á heilsugæslunni séu allt of tíðar, oft á mjög alvarlegum kvillum.
Halldór Ármannsson er einn þeirra sem lenti í slíku fyrir nokkrum árum eftir vinnuslys þegar lyftari keyrði á fótinn á honum.
„Þegar dekkið spyrnir, þetta eru stór dekk sko, þá er ég fastur hér undir,“ segir Halldór og sýnir hvar lyftarinn fór á fótinn á sér í myndbandinu sem fylgir fréttinni.
„En hann stoppar, sko. Ef hann hefði farið lengra þá hefði löppin bara farið.“
Hann var þá fluttur upp á HSS.
„Það voru ekki teknar neinar myndir af þessu eða neitt heldur settur bara teygjusokkur utan um fótinn. Og ég sendur heim með verkjalyf,“ segir Halldór.
Ekki eins og að verða fyrir reiðhjóli
Þegar verkurinn ágerðist í fætinum ákvað hann að láta skoða hann betur í Reykjavík og reyndist þá þríbrotinn.
„Það er dálítið kjánalegt að þeir hafi ekki einu sinni tekið mynd af þessu þegar þeir vissu að það fór 12 tonna lyftari á fótinn á mér. Það er ekki eins og þetta hafi verið reiðhjól,“ segir Halldór.
Hann er einn þeirra fjölmörgu íbúa Suðurnesja sem fer í dag frekar til læknis í bænum.
„Við hjónin lentum svo í fleiri vandræðum þarna og eftir það létum skrifa okkur inn á lækni í Reykjavík eða heilsugæslu,“ segir hann.
Vill einkarekna heilbrigðisþjónustu á Suðurnes
Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar og þingmaður kjördæmisins, kannast vel við vandamál HSS.
„Í langan tíma er maður búinn að vera að berjast fyrir betri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og svæðið náttúrulega fer ört stækkandi og miðað við viðmiðið sem menn eru að gefa sér á höfuðborgarsvæðinu þá þyrftu að vera þrjár heilsugæslur á Suðurnesjunum,“ segir Jóhann.

Hún er aðeins ein heilsugæslan á svæðinu núna sem fellur undir rekstur HSS.
Jóhann telur réttast að koma á fót einkarekinni heilsugæslu á svæðinu til að létta undir með HSS.
„Þarna ætti bara að vera tækifæri fyrir einkaaðila að manna heilsugæslu og það hefur gengið ágætlega á undanförnum árum að byggja það kerfi upp á höfuðborgarsvæðinu. Og ég veit ekki betur en að það sé mannað þannig við þurfum auðvitað bara að gera betur,“ segir Jóhann.