„Saga þessara leiks er náttúrulega þrjú skot í höfuðið á markverði. Gaupi er búinn að fjalla um þetta alla vikuna í fréttunum, þetta er ofboðslega alvarlegt. Þetta eru þrjú skot í þessum leik, mér fannst þetta eiginlega verst,“ sagði þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson er Allan Nordberg fór inn úr hægri horninu og smellti boltanum í andlitið á Phil Döhler, markverði FH.
Svo kom annað atvik í síðari hálfleik þar sem Bruno Bernat, markvörður KA, fékk boltann beint í andlitið.
„Mér finnst þetta svolítið skrítin skot að velja hjá hornamönnunum. Þú ert að fara þröngt inn, það sem þú vilt gera þar er að komast nálægt markmanninum og ef hann stendur þá reynir þú að gera einhverjar rósir. Þarna bara beint … ég veit það ekki,“ sagði Bjarni Fritzson og hristi höfuðið yfir skotavali hornamanna beggja liða.
„Mér finnst þessi hornafæri, þegar það er verið að negla á hausinn bara óafsakanlegt. Það er ekki hægt að skýla sér á bakvið það að þetta sé óvart. Þeir velja sér að fara þröngt og ætla bara að dúndra á hausinn til að markvörðurinn fari niður með hendurnar því færið er mjög þröngt. Víti er bara slys en …,“ bætti Jóhann Gunnar Einarsson við áður en við fengum myndir af því þegar Brynjar Darri Baldursson, fyrrverandi markvörður Stjörnunnar fékk fast skot í andlitið. Hann er nú hættur í handbolta.
Reglubreyting eftir þetta tímabil
Leikmaður fær tvær mínútur ef þeir skjóta í höfuðið á markverði nema það sé verið að brjóta á þeim – varnarmaður fær tvær mínútur eða dæmt vítakast, annars verða það alltaf tvær mínútur.
Umræðu Seinni bylgjunnar um höfuðhöggin og reglubreytinguna má sjá hér að neðan.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.