Vefurinn Mannlíf.is lá niðri fram á miðjan dag 28. janúar eftir að brotist var inn á skrifstofur miðilsins nóttina áður og öllu eytt út af síðunni. Reyni Traustasyni ritstjóra var illa brugðið; honum leið eins og honum hafi verið misþyrmt, stunginn í bakið.
Í nýrri frétt Mannlífs um málið segir að ritstjórn miðilsins hafi unnið að rannsókn málsins undanfarnar vikur og að lögreglunni hefði ekkert sýnilega miðað í þeim efnum.
„Á sunnudaginn hafði gerandinn samband við ritstjóra Mannlífs, baðst fyrirgefningar, og játaði verknaðinn og bauðst til þess að upplýsa undanbragðalaust um atvikin sem og tengsl sín við tiltekinn auðmann,“ segir í fréttinni.
Þá segir að innbrotsþjófurinn muni stíga fram opinberlega í hlaðvarpinu Mannlífið með Reyni Traustasyni, sem sent verður út á vefnum í kvöld.