Dmitry Peskov, talsmaður Kreml, sagði fyrr í dag að rússneska sendinefndin verði tilbúin í dag til að ræða aftur við þá úkraínsku. Úkraínsk stjórnvöld hafa þó ekki tilkynnt þetta formlega.
„Síðdegis í dag verður sendinefnd okkar tilbúin til að taka á móti úkraínsku sendinefndinni,“ sagði Peskov og sagðist ekki vilja tilgreina staðsetninguna. Í frétt Tass, sem er í eigu rússneska ríkisins hefur eftir Sergei Lavrov utanríkisráðherra að Úkraínumenn séu að draga fundinn vegna fyrirskipana frá Washington.
„Við erum tilbúnir til annarrar umferðar friðarviðræðna en Úkraínumenn eru að fresta [ferlinu] vegna fyrirskipana Ameríkana,“ sagði Lavrov í viðtali hjá Al Jazeera.
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu sagði þó í gærkvöldi að friðarviðræður gætu ekki haldið áfram á meðan ekkert lát er á loftárásum Rússa.
Sendinefndirnar funduðu á mánudag á landamærum Hvíta-Rússlands og Úkraínu en fundurinn bar ekki árangur.