Undanfarið höfum við fjallað um óánægju ýmissa íbúa með þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Um það bil sjötti hver íbúi Suðurnesja sækir sér heilbrigðisþjónustu í Reykjavík og kvarta þeir margir yfir lélegri þjónustu, litlum áhuga lækna og of tíðum ranggreiningum á alvarlegum kvillum.
Formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ vill kenna stjórnunarvanda á spítalanum um lélega þjónustu sem margir upplifa.
„Númer tvö er það að læknarnir hérna hafa verið hluti af starfsmannaleigu sem gerir það að róteringar á læknum er gríðarleg. Fáir staldra við. Þannig við erum alltaf að hitta nýjan lækni í hvert skipti sem maður kemur hingað. Og þetta veldur bara miklum leiðindum og samfélagið hérna þarf að gjalda dálítið fyrir þetta að hafa ekki sinn eigin lækni,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðsins.
Undirmönnun hefur lengi verið vandamál á HSS og þeir íbúar sem fréttastofa hefur rætt við í vikunni kvarta allir yfir mikilli starfsmannaveltu.
„Ef eini valkosturinn að fá lækni er að fara í gegn um starfsmannaleigu yfirlæknisins hérna á HSS þá er það náttúrulega mjög döpur staða,“ segir Friðjón.
HSS segir neikvæða umfjöllun rót vandans
Ekki hefur náðst í Markús Ingólf Eiríksson, forstjóra HSS, eða neinn í framkvæmdastjórninni. Hún sendi þó frá sér yfirlýsingu á Facebook í gær sem má lesa hér að neðan.
Í yfirlýsingunni er ekki farið yfir nein þau atriði sem ósáttir íbúar hafa kvartað yfir við okkur.
Þar segir hins vegar að „stofnunin hafi lengi starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu“ og að það sé ein helsta orsök mönnunarvandans.
„Í stað þess að vinna með stofnuninni hafa sumir valið að fara þá leið að gagnrýna starfsfólk hennar ómálefnalega og vinna þannig gagngert gegn uppbyggingu,“ segir í yfirlýsingunni.
Bæjarstjórinn fengi ekki að reka starfsmannaleigu
Eftir því sem fréttastofa kemst næst er umrædd starfsmannaleiga yfirlæknisins ekki lengur starfandi sem slík en samt sem áður er enn mikið um að læknar sem starfi á HSS fari sem verktakar út á land.
Friðjóni finnst þó galið að hitt fyrirkomulagið hafi verið látið viðgangast.
„Mér finnst þetta fáránlegt. Ég get ekki séð í anda að ef bæjarstjórinn hjá Reykjanesbæ væri með starfsmannaleigu og væri að skipta út fólki alla daga. Hann myndi ekki verða bæjarstjóri lengi þá. Það er alveg ljóst,“ segir Friðjón.