Framboðsfrestur fyrir prófkjörið rann út á hádegi í dag og hefur kjörstjórn staðfest kjörgengi sjö frambjóðenda. Þetta er í fyrsta sinn sem flokkur Viðreisnar heldur prófkjör en flokkurinn hefur hingað til stuðst við uppstillingu á listum sínum til þings og sveitarfélaga.
Anna Kristín Jensdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoega, Erlingur Sigvaldason, Geir Finnsson, Pawel Bartoszek, Þórdís Jóna Sigurðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir munu þar berjast um fjögur efstu sætin á lista flokksins.
Viðreisn er nú með tvo borgarfulltrúa í Reykjavík, þau Pawel Bartoszek og Þórdísi Lóu, og sækjast þau bæði eftir sæti á lista flokksins á ný. Þórdís, sitjandi oddviti, vill leiða lista flokksins áfram og sækist Pawel eftir öðru sæti á listanum.
Auk Þórdísar Lóu sækist Þórdís Jóna eftir fyrsta sætinu á meðan Erlingur Sigvaldason, Diljá Ámundadóttir og Geir Finnson sækjast eftir því þriðja. Anna Kristín sækist síðan eftir þriðja til fjórða sæti.
Gengið verður til atkvæða fjórða mars næstkomandi og lýkur laugardaginn fimmta mars. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag prófkjörsins verða birtar þegar nær dregur.
Fréttin hefur verið uppfærð.