Kirkjan gaf upp fjöldann að beiðni nefndar sem sett var á laggirnar af Jacindu Ardern forsætisráðherra árið 2018. Ráðherrann sagði á þeim tíma að landið þyrfti að gera upp „myrkan kafla“ í sögu sinni. Nefndinni var upphaflega aðeins ætlað að rannsaka misnotkun á vistheimilum en rannsóknin var síðar útvíkkuð og nær nú til kirkna og annarra trúarstofnana.
Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu sem gefin var út í desember síðastliðnum voru um það bil 250 þúsund börn, ungmenni og fullorðið fólk í viðkvæmri stöðu misnotuð á heimilum sem rekin voru af hinu opinbera og trúarstofnunum frá 1960 og fram yfir aldamót.
Tölfræðin er varðar kaþólsku kirkjuna nær til 428 prestakalla, 370 kaþólskra skóla og 67 annarra stofnana. Um er að ræða ofbeldi af ýmsu tagi; líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi, auk vanrækslu.
Rannsóknin innan kirkjunnar leiddi í ljós að frá árinu 1950 hefðu 1.350 börn tilkynnt um ofbeldi og 164 fullorðnir. Þá höfðu 167 á ótilgreindum aldri tilkynnt ofbeldi á sama tíma. Um 80 prósent tilkynninganna vörðuðu börn og í um helmingi tilvika vörðuðu tilkynningarnar kynferðisofbeldi gegn barni.
Í heildina voru 14 prósent vígðra innan kirkjunnar sakaðir um ofbeldi, 8 prósent presta og 3 prósent nunna. Flest tilvikin áttu sér stað frá 1960 til 1970 og 75 prósent fyrir 1990.
Samtök þolenda kynferðisofbeldis, Snap, telja raunverulegan fjölda tilvika allt að tvöfalt meiri.