Forystumenn þingflokkanna lýstu yfir miklum létti og þökkuðu hinum áttræða Mattarella fyrir að samþykkja að sitja áfram í eitt kjörtímabil, eftir að þinginu tókst ekki að sammælast um eftirmann hans. Þingmenn höfðu gengið sjö sinnum til kosninga um næsta forseta landsins án niðurstöðu.
Spennan var því mikil á ítalska þinginu, sem má vart við nokkrum óstöðugleika, þar sem ríkisstjórnir hafa yfirleitt ekki lifað af nema í um ár að undanförnu.
Mario Draghi forsætisráðherra hafði sóst eftir forsetaembættinu en mun halda áfram sem forsætisráðherra. Hann þakkaði Mattarella fyrir að koma til móts við þingið og sagði kjör hans mikinn sigur fyrir Ítali.