Rikka vinnur hjá fyrirtækinu GB tjónaviðgerðir, sem er staðsett við Dragháls í Reykjavík. Þarf starfar hún við fjölbreytt verkefni og gengur í öll störf á verkstæðinu. Rikka útskrifaðist fyrir jól sem bifreiðasmiður og fékk fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.
En hvað gera bifreiðasmiðir?
„Við réttum og lögum beyglur og skiptum um ónýta hluti, allt sem málarinn í rauninni gerir ekki,“ segir Rikka og bætir við.
„Ég er bílamálari líka, ég tók verðlaunin líka þar, fékk hæstu einkunnir þar. Ég er að sjálfsögðu stolt af þessum árangri en ég held að mamma og pabbi séu stoltari.“
Rikka segir fjölbreytileikann skemmtilegasta við störfin sín, hún sé sjaldan að gera það sama. Það sé vinnuandinn góður, sem skipti miklu máli.

„Já, okkur konunum fer fjölgandi í stéttinni. Við fengum nema í haust, sem er stelpa líka, þannig að við erum að koma sterkt inn,“ segir Rikka.
En hvað segja strákarnir á verkstæðinu yfir þessu?
„Ég held að þeim þyki bara fínt að hafa sætar skvísur hjá sér,“ segir Rikka og hlær.
Erlendur Karl, eigandi verkstæðisins og meistari Rikku er hæstánægður með hana og hennar störf?
„Hún er alveg frábær, dugleg og kraftmikil og stendur sig alveg stórkostlega, hún hefur þetta í blóðinu,“ segir Erlendur Karl.
