Sérfræðingar hafa þó enn áhyggjur af því að gríðarlegur fjöldi tilfella muni verða heilbrigðisstofnunum ofviða. Fleiri en 100 þúsund tilvik greindust á einum sólahring í Bretlandi í vikunni. Er það í fyrsta sinn sem það gerist í faraldrinum.
Samkvæmt vísindamönnum sem vinna að rannsókn sem nú stendur yfir í Skotlandi ættu 47 að hafa lagst inn á sjúkrahús með ómíkron ef afbrigðið hegðaði sér eins og delta. Raunverulegur fjöldi er hins vegar 15.
Um 65 prósent færri legðust nú inn á sjúkrahús en tilfelli ómíkron væru hins vegar enn fá og fátt um eldra fólk. Jim McMenamin, sem fer fyrir baráttunni gegn Covid-19 í Skotlandi segir um að ræða góðar fréttir, með fyrirvara.
Mark Woolhouse, prófessor við University of Edinburgh, segir að mögulega muni einstaklingar almennt upplifa mildari veikindi en vegna delta en hættan væri hins vegar sú að margir veikist á sama tíma og setja gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið.
Rannsóknin í Suður-Afríku bendir til þess að þeir sem veikjast af ómíkron séu 70 til 80 prósent ólíklegri til að þurfa á innlögn að halda en þeir sem hafa greinst með önnur afbrigði veirunnar. Hins vegar virðist þeim fara eins sem leggjast inn yfirhöfuð.