Uppfært klukkan 00:00.
Enginn leki reyndist kominn að grænlenska fiskiskipinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni og biðst hún velverðingar á misskilningnum. Segir í tilkynningu að stærstur hluti áhafnar verði samt sem áður fluttur frá borði og yfir í varðskipið Freyju.
Uppfært klukkan 23:40.
Sjódælur úr Freyju hafa verið sendar um borð í Masilik og að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hafa þær undan. Björgunarskip á vegum Landsbjargar munu sækja áhöfn Masilik úr Freyju og koma henni til hafnar í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir að koma fiskiskipinu af strandstað í nótt. Enginn olíuleki er sjáanlegur.
Varðskipið Freyja var í kvöld kallað út vegna grænlenska fiskiskipsins Masilik sem strandaði við Vatnsleysuströnd fyrr í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar var sömuleiðis kölluð út og flaug hún yfir svæðið til að meta aðstæður.
Áhöfnin á Freyju undirbýr nú að koma dráttartaug á milli varðskipsins og Masilik en það er um 500 metra frá landi. Þetta segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Aðstæður á strandstað eru sagðar ágætar, aflandsvindur og ekki mikill sjógangur, eins og má kannski sjá á myndunum sem fylgja fréttinni og voru teknar í kvöld. Vind mun þá lægja eftir því sem líður á nóttina og er gert ráð fyrir að Freyja muni taka fiskiskipið í tog seinna í nótt en flóð verður um klukkan fimm.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við fréttastofu að áhafnarmeðlimir Freyju hafi farið um borð í Masilik til að kanna skammdir og hvort leki væri kominn í skipið. Þeir hafi gengið um skipið hátt og lágt og farið niður í vélarrúm. Engin merki hafi verið um það að leki sé kominn að skipinu, sem sé strand á grynningum.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að skipið væri strandað um klukkan sjö í kvöld og óskaði skipstjóri þá eftir dráttarbát. Við nánari eftirgrennslan Gæslunnar kom í ljós að skipið væri strandað og þá tekin ákvörðun um að senda varðskip á staðinn. Nítján eru um borð í skipinu.
Umhverfisstofnun og lögreglu var þá gert viðvart en eins og áður segir flaug þyrla Gæslunnar yfir svæðið í kvöld og varð, samkvæmt tilkynningu, áhöfnin ekki vör við olíu í sjónum. Miðað við aðstæður á strandstað var ákveðið að áhöfn þyrlunnar færi aftur inn á flugvöll og væri þar í viðbragðsstöðu.
Engin hætta er talin steðja að skipinu eða áhöfn þess. Björgunarsveitir Landsbjargar eru einnig til taks á svæðinu og er vettvangsstjórn í höndum skipherra varðskipsins Freyju.
Hér að neðan má sjá staðsetningu skipsins. Bláu punktarnir eru björgunarbátarnir og appelsínuguli er Masilik.