Að sögn talsmanna alþjóðaverkalýðssamtakanna BCTGM greiddi yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna atkvæði á móti tilboðinu, sem er það fyrsta sem fyrirtækið leggur fram í viðræðunum.
Starfsmennirnir segja 3 prósent ekki nóg; þeim sé oft gert að vinna 80 stunda vinnuviku og fái ekki frí um helgar. Fyrst hafi fyrirtækið hrósað þeim sem hetjum fyrir að standa vaktina í kórónuveirufaraldrinum en nú sé komið annað hljóð í strokkinn.
„Við fáum ekkert helgarfrí í raun. Við vinnum bara sjö daga vikunnar, stundum 100 til 130 daga í röð. Vélarnar ganga í 28 daga og svo eru þær hvíldar og þrifnar í þrjá daga. Þeir fara ekki einu sinni jafn vel með okkur og vélarnar,“ hefur Guardian eftir einum starfsmanna Kellogg.
Starfsfólkið vinnur við framleiðslu morgunkorns í verksmiðjum í Michigan, Nebraska, Pennsylvaníu og Tennessee. Fyrirtækið hefur hingað til haldið framleiðslunni gangandi með því að fá utanaðkomandi verkamenn til að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli en hefur nú tilkynnt að það hyggist ráða aðra í störf þeirra.
Todd Vachon, sem kennir vinnumarkaðsfræði við Rutgers University, segir fyrirtækið þó mögulega munu eiga í vandræðum með að fylla störfin. Til að mynda sé ekki víst að aðrir séu viljugir til að taka þátt í að grafa undan þeim sem eru í verkfalli.
Þá virðist sú staðreynd að tilboði Kellogg var hafnað benda til þess að starfsmenn telji samningsstöðu sína góða.