Síðast dróst ársfjórðungslosun í Kína saman á milli ára á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs þegar kórónuveiran skaut fyrst upp kollinum. Á fyrri helmingi þessa árs jókst hún um níu prósent samkvæmt greiningu Orku- og loftgæðarannsóknastofnunarinnar (CREA) í Helsinki í Finnlandi.
Framboð á kolum hefur verið afar takmarkað í Kína undanfarið og sögulega hátt verð hefur leitt til rafmagnsleysis í mörgum héruðum á þriðja ársfjórðungi. Það hefur komið niður á bæði iðnaði og almennum borgurum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Framleiðsla á stáli og sement dróst saman um sextán og ellefu prósent, hvor um sig, frá öðrum ársfjórðungi. Kínversk stjórnvöld hægðu á byggingariðnaði í landinu til þess að verjast mögulegu falli fasteignarisans Evergrande.
Markmið kommúnistastjórnarinnar er að losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum nái hámarki í kringum árið 2030 og dragist síðan saman. Lauri Myllyvirta, aðalgreinandi CREA, segir samdráttinn á síðasta ársfjórðungi mögulega benda til þess að losun í Kína hafi þegar náð hámarki sínu, vel á undan áætlun.
Dæli Kínverjar aftur fé í byggingariðnaðinn til þess að koma hjólum efnahagslífsins á hreyfingu gæti losun þó aukist aftur.
Kína er mesti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum um þessar mundir en sögulega hafa Bandaríkin losað mest magn út í andrúmsloftið.