Tryggingafélagið Vörður kvartaði til Neytendastofu og sagði Sjóvá stunda óréttmæta og villandi viðskiptahætti vegna auglýsingarinnar. Í auglýsingunum stóð meðal annars: „Víðtækari kaskótrygging. Hjá Sjóvá er bíllinn þinn tryggður fyrir alls kyns tjónum sem ekki eru bætt annars staðar.“
Í auglýsingum Sjóvár var einnig gerður sérstakur samanburður á skilmálum trygginga annarra tryggingafélaga og taldi Vörður að um ólögmætar samanburðarauglýsingar væri að ræða.
Sjóvá bar fyrir sig að mistök hafi gerð með samanburðinum, enda hafi úreltar upplýsingar verið notaðar í einhvern hluta auglýsinganna. Strax hafi verið brugðist við mistökunum á viðeigandi hátt. Tryggingafélagið bar þá fyrir sig að meginskilaboð auglýsinganna væru efnislega rétt, þrátt fyrir mistökin.
Neytendastofa var þessu ekki sammála og komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingarnar væru rangar og villandi, og til þess fallnar til að hafa áhrif á eftirspurn vara. Með hliðsjón af umfangi brotsins taldi Neytendastofa þó ekki rétt að beita sektum.