CNN greindi fyrst frá og hafði eftir embættismönnum innan bandaríska stjórnkerfisins. Í frétt CNN sagði einnig að stjórnstöð geimmála í Bandaríkjunum hafi staðfest að sjaldgæfur og mögulega hættulegur „ruslskapandi viðburður“ hafi átt sér stað, án þess að farið hafi verið út í smáatriði.
Skömmu síðar gaf bandaríska utanríkisráðuneytið út yfirlýsingu þar sem vopnatilraunin var fordæmd og sögð ógna Alþjóðageimstöðinni og annarri starfsemi í geimnum. Var tilraunin sögð hættuleg og óábyrg.
Ítarlega var fjallað um geimrusl og þá hættu sem því fylgir, á Vísi fyrr á árinu.
Talið er að Rússar hafi skotið flugskeyti frá jörðu niðri í átt að gervitungli á braut um jörðu, með þeim afleiðingum að það splundraðist í tætlur, í minnst 1.500 stykki og líklega mun fleiri.
Við það skapaðist svokallað geimrusl sem getur verið hættulegt rekist manngerðir hlutir á braut um jörðu á ruslið á ferð.
Þannig segir CNN einnig frá því að geimfarar í Alþjóðageimstöðinni hafi í dag þurft að klæða sig í geimbúninga sína í flýti, svo þeir gætu rýmt geimstöðina ef ske kynni að hún yrði fyrir geimrusli.
Hér má sjá stutt myndband frá ESA þar sem geimrusl er útskýrt á myndrænan hátt.