Hópurinn hafði verið að höggva niður tré í skóginum vorið og sumarið 2018 en 3. ágúst fundu þeir geitungabú við stofn afar verðmæts hlyns. Mennirnir spreyjuðu skordýraeitri á búið og kveiktu í því en flúðu af vettvangi þegar þeim tókst ekki að slökkva eldinn.
Eldurinn breiddist út á 13 ferkílómetra svæði og það kostaði um það bil 4,2 milljónir Bandaríkjadala að ná tökum á honum og slökkva hann.
Höfuðpaurinn, Justin Andrew Wilke, 39 ára, var reyndar ekki dæmdur fyrir skógareldinn, sem ákæruvaldinu tókst ekki að sanna með óyggjandi hætti að hann hefði kveikt, heldur fyrir þjófnað, samsæri og fyrir að versla með ólöglega fengið timbur.
Það sem vekur hins vegar athygli er að þetta mun vera í fyrsta sinn sem alríkisdómstóll fellir dóm þar sem erfðaefni úr trjám er meðal sönnunargagna.
Erfðafræðingur sem bar vitni í málinu sagði að erfðarannsóknir hefðu leitt í ljós að timbur sem Wilke seldi timburvinnslu hefði verið tekið af stofnum sem fundust á svæðinu þar sem eldurinn kviknaði og þar sem tré hefðu verið felld ólöglega.
Við rannsókn málsins var erfðaefni 230 hlyntrjáa á svæðinu greint og líkurnar á því að timbrið sem Wilke seldi hafi tilheyrt umræddum skógi sagt nær óyggjandi.
Búið er að kortleggja erfðaefni umræddrar hlyntegundar á svæði sem spannar leið frá landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og að landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Vísindemnn segja þó mikið verk framundan, þar sem kortleggja þarf hverja einustu trjátegund með sama hætti.