Annar ökumannanna lést og hinn slasaðist alvarlega. Tilkynning um slysið barst klukkan 8.08, en myrkur og blautt var á vettvangi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var það ökumaður rafmagnshlaupahjólsins sem lést. Þá voru báðir með hjálm.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Um er að ræða fyrsta banaslysið hér á landi þar sem rafhlaupahjól kemur við sögu.
Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir málið í rannsókn. Hann segir meðal annars til skoðunar hvort átt hafi verið við hjólin til að auka hraða þeirra.

Leyfilegur hámarkshraði rafhlaupahjóla hér á landi er 25 kílómetrar á klukkustund og má aka þeim á göngustígum.
Hvað rafmagnsvespur varðar þá má aka þeim á göngustígum ef þær komast ekki hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Sé hraðinn meiri á að aka þeim á götunni.
Annað slys hvað varðar rafhlaupahjól varð í miðborginni skömmu eftir miðnætti. Frá því var greint í dagbók lögreglu í morgun. Ungur maður datt af rafmagnshlaupahjóli og hlaut skurð, auk þess að vera illa áttaður eftir fallið. Var hann fluttur á bráðamóttöku Landspítala með sjúkrabifreið.