Valur vann leikinn með eins marks mun, 24-25, og er með fullt hús stiga á toppi Olís-deildarinnar.
Seinni bylgjan fékk aðeins að skyggnast bak við tjöldin hjá Val fyrir leik, eftir leik og í hálfleik á laugardaginn. Afraksturinn var sýndur í þættinum í gær.
Í hálfleik lagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, sérstaka áherslu á að hans leikmenn væru duglegir að hlaupa til baka og stöðva hraðaupphlaup Fram, kannski þeirra sterkasta vopn. Og hann fór svo yfir hvernig ætti að stöðva Ragnheiði Júlíusdóttur, helstu skyttu Framliðsins.
„Fara áfram í Ragnheiði, taka fast á henni, mæta henni og komast í skrokkinn á henni. Klárar á því. Við ætlum ekki að láta hana skjóta á mjöðmina á okkur. Standiði ennþá ýktar á hana ef hún skýtur á mjöðmina. Þá getur hún ekki hitt markið, það fer það langt framhjá. Standiði og látið hana koma í þessa átt,“ sagði Ágúst sem hvatti svo Valsliðið til að keyra áfram grimmt á Framliðið.
Eftir leikinn sagði Ágúst Valskonum að njóta sigursins en varaði þær jafnframt við því að fara of hátt því framundan væri erfiður leikur gegn ÍBV á miðvikudaginn.
„Það er gott að njóta sigursins í kvöld, og geriði það, en svo þurfum við að núllstilla og undirbúa okkur svo við fáum ekki rjómatertu í andlitið á miðvikudaginn, halda að við séum orðnar það góðar,“ sagði Ágúst.
Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.