Niðurstöður umræddrar rannsóknar voru birtar í vísindatímaritinu Lancet en til skoðunar var árangur HPV-bólusetningarinnar í Bretlandi, sem hófst árið 2008. Þar er stúlkum boðin bólusetningin á aldrinum 11 til 13 ára.
Þær konur sem voru fyrst bólusettar eru nú á þrítugsaldri en rannsóknin leiddi í ljós að meðal þeirra var tíðni leghálskrabbameins 87 prósent minni en áður þekktist og þá fækkaði þeim verulega sem greindust með forstigsbreytingar.
Rannsakendurnir segja að bólusetningarátakið hafi komið í veg fyrir 450 krabbameinstilvik og 17.200 tilfelli forstigsbreytinga.
Þá benda þeir á að þar sem hópurinn sé enn ungur; venjulega greinist um 50 konur með leghálskrabbamein á ári í umræddum aldurshóp en í bólusetta hópnum hafi aðeins fimm greinst. Tölfræðin muni verða enn betri með tímanum.
Vonir standa til að í framtíðinni verði fyrirkomulag skimana þannig að konur sem hafa verið bólusettar sem börn þurfi aðeins að mæta í sýnatöku tvisvar til þrisvar á lífsleiðinni. Enn er því þó ósvarað hversu lengi bólusetningin dugar og hvort þörf er á örvunarskammti.
Þá eru til meira en hundrað tegundir af HPV-veirum en aðeins bólusett gegn þeim hættulegustu.