Sentinel-2 gervihnötturinn flaug yfir eyjuna um helgina og tók myndir eftir að gígur eldfjallsins hrundi að hluta.Það gerði það að verkum að aukið magn fljótandi hrauns flæddi niður hlíðar fjallsins.
Myndin sem sjá má hér að ofan var tekin af Sentinel-2 en hún hefur verið unnin þannig að hraunstraumurinn er mjög greinilegur. Tók hann nýja stefnu frá eldri farvegi hraunsins sem hafði náð út í sjó.

Gasstraumur frá eldfjallinu færist nú að mestu yfir Afríku. Gosmökkurinn nær í um þriggja kílómetra hæð og náðu geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni glæsilegum myndum af gosmekkinum fyrr í mánuðinum.
Talið er að um 1.200 hús hafi farið undir hraun að öllu leiti eða að hluta frá því að eldgosið hófst. Er hraunið talið þekja um sex hundruð hektara. Alls hafa 6.700 íbúar þurft að yfirgefa heimili sín frá því að gosið hófst.
Beina útsendingu Reuters frá eldgosinu má sjá hér fyrir neðan.