Innlent

Stöðvuðu hópslags­mál á veitinga­stað

Þorgils Jónsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum útköllum í gærkvöldi og í nótt. Nokkrir fengu að gista fangageymslur.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum útköllum í gærkvöldi og í nótt. Nokkrir fengu að gista fangageymslur. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að skerast í leikinn á veitingastað í Reykjavík á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um hópslagsmál. Þar tókust á um átta til tíu manns, en engan sakaði og lögregla leysti málið á vettvangi.

Í dagbók lögreglu má ráða að talsverður erill hafi verið í gærkvöldi og í nótt þar sem fjölmörg útköll voru vegna samkvæmishávaða, slysa, ölvunar, átaka og umferðarbrota.

Meðal annars var maður skallaður utan við skemmtistað í miðborginni, þannig að tennur hans brotnuðu. Gerandi var á brott þegar lögregla kom að, en sá slasaði var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku.

Aðili sem var var viðriðin líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur, en neitaði að segja til nafns var handtekinn í þágu rannsóknar og fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Þar gaf hann loks upp nafn og kennitölu. Maðurinn verður, að sögn lögreglu, kærður fyrir að segja ekki til nafns eða framvísa skilríkjum að kröfu lögreglu.

Þá var par handtekið á þriðja tímanum, eftir að hafa veist að farþega í leigubíl, valdið skemmdum á leigubifreiðinni. Þau neituðu að fara eftir fyrirmælum lögreglu og annað þeirra reyndi einnig að tálma lögreglu störf. Þau bæði vistuð í fangaklefa og fundust fíkniefni í fórum þeirra beggja.

Þá féll kona af rafhlaupahjóli í miðborginni og var sjúkrabíll kallaður á vettvang.

Loks má geta þess að lögregla var send að umferðaróhappi í austurborginni. Þar reyndist ökumaður ekki vera komin með aldur til þess að hafa ökuréttindi. Var málið afgreitt með aðkomu foreldra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×