Lögin sem um ræðir tóku fyrst gildi fyrsta september og voru strax fordæmd um allt land og víða um heim enda eru þau sú ströngustu í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim er þungunarrof ólöglegt allt frá því fyrst mælist hjartsláttur í fóstri, sem er jafnan eftir um sex vikna meðgöngu. Engar undantekningar eru veittar, jafnvel þótt þungunin komi til vegna nauðgunar eða sifjaspells.
Almennir borgarar geta kært veitendur þjónustu fyrir brot á lögunum, sem og alla þá sem hvetur eða aðstoðar konu við að leita þjónustunnar. Kærendur þurfa ekki að tengjast konunni með neinum hætti til að kæra, en leiði kæran til sakfellingar eiga kærendur engu að síður rétt á tíu þúsund dala miskabótum.
Í frétt AP kemur fram að sé litið til síðasta árs voru 55 þúsund þungunarrofsaðgerðir gerðar í ríkinu, en einungis um 15% þeirra voru gerðar á sjöttu viku eða fyrr.
Alríkisdómari, sem skipaður var í forsetatíð Barack Obama, ógilti lögin á miðvikudag, með þeim rökum að lögin gengu gegn stjórnarskrárvörðum rétti kvenna til þungunarrofs.
Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði árið 1992 að ríki gætu ekki bannað þungunarrof fyrr en fóstur gæti lifað utan legs, sem er um tuttugustu og fjórðu viku meðgöngu.
Yfirvöld í Texas lýstu því strax yfir að þau hygðust áfrýja þessum úrskurði, en áfrýjunardómstóllinn sem tók málið fyrir er skipaður íhaldssömum dómurum.
Sem fyrr sagði, samþykkti áfrýjunardómstóllinn beiðni Texas um að leyfa lögunum aftur að taka gildi, um stundarsakir hið minnsta, og gaf ríkisstjórn Joe Bidens forseta frest fram á þriðjudag til að bregðast við.