Skömmu fyrir miðnætti barst tilkynning um líkamsárás á skemmtistað í miðbænum. Þar var einn handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um hnífstungu að ræða.
Í gær var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna einstaklings sem var til vandræða í Hlemmi Mathöll. Þá barst einnig tilkynning um ölvaðan mann sem var að trufla umferð í Breiðholti með því að ganga fyrir bíla og reyna að komast inn í þá. Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manna sem voru að slást í samkvæmi.
Þar að auki var lögregla kölluð til vegna einstaklings sem var til vandræða á Bráðamóttöku í Fossvogi.
Mikið virðist hafa verið um stúta í umferðinni í nótt en í dagbók lögreglu kemur fram að fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Minnst einn þeirra reyndist þegar hafa verið sviptur ökuréttindum.
Þá var einn ökumaður á ótryggðum bíl og er sömuleiðis grunaður um brot á vopnalögum.