Það er óhætt að segja að mannanafnanefnd sé umdeilt fyrirbæri í íslensku samfélagi.
Margir vilja leggja stofnunina niður en aðrir vilja ekki heyra á það minnst. Og síðan eru það þeir sem hafa andúð á nefndinni en taka hana í sátt þegar hún loks verður við vilja þeirra:
„Ég var náttúrulega alltaf ánægður með Áslaugu Örnu á sínum tíma þegar hún vildi leggja þetta niður. En ég vil halda þessu batteríi gangandi núna. Ég er mjög ánægður með þetta,“ segir Sigurður Gísli Bond Snorrason, sem fékk það í gegn hjá mannanafnanefnd um miðjan mánuðinn að taka upp þetta heimsþekkta njósnaranafn.
Þegar Þjóðskrá hafnaði nafninu Bond upprunalega í sumar var hljóðið allt annað í Sigga:
Nú treysti ég á að þessi brandarastofnun leggist niður og það í hvelli!!! pic.twitter.com/UrNKDtvrnp
— Sigurđur Gìsli (@SigurdurGisli) July 27, 2021
Hann hefur alltaf verið kallaður Siggi Bond í gegn um árin en hvers vegna?
„Afi minn heitinn Sigurður Oddur Bjarnason, hann var alltaf kallaður Siggi Bond, hann var svo líkur Sean Connery í gamla daga. Þannig að mamma var alltaf dáldið skotin í þessu nafni og hún vildi skíra mig þetta upprunalega. Nú er draumurinn loksins búinn að rætast,“ segir Siggi.

Nýdönsk Kóbra
En það eru fleiri nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt upp á síðkastið að megi nota hér á landi.
Þar má til dæmis nefna:
- Blár
- Kóbra
- Gosi
- Svarthöfði
- Nýdönsk
Af þessum nöfnum vekur Svarthöfði sérstaka athygli ekki síst vegna þess að nefndin hafnaði því nýlega að heimila notkun nafnsins Lúsífer á Íslandi því það gæti orðið nafnbera til ama.
Nefndin virðist hér heldur forn í háttum sínum og vísar til þess að nafnið Svarthöfði hafi tíðkast á öldum áður en það kemur til dæmis fram í Sturlungu. Nafni hans í Stjörnustríði virðist þannig ekki hafa haft áhrif á ákvörðun nefndarinnar.
En samþykktu nöfnin eru fjölmörg og hver veit nema lítil Nýdönsk Kóbra hafi fæðst á spítalanum í dag?