Frá þessu greinir Hlynur í færslu á samskiptamiðlinum Linked-In en hann hefur gegnt stöðu aðalræðismanns og viðskiptafulltrúa í New York frá árinu 2006.
Aðalræðisskrifstofan þar er fyrsta íslenska sendiskrifstofan sem var opnuð eftir að íslenska utanríkisþjónustan var stofnuð árið 1940, að því er segir á vef Utanríkisráðuneytisins.
Í færslunni segist Hlynur spenntur fyrir því að takast á við nýjar áskoranir í Kanada á sama tíma og hann sé þakklátur fyrir tímann í New York og allt það sem tekist hafi að áorka á þeim fimmtán árum sem hann hafi gegn starfi sínu þar.

Hlynur mun taka við sem sendiherra í Kanada af Pétri Ásgeirssyni sem verið hefur sendiherra Íslands í Kanada frá 1. nóvember 2017. Auk Kanada þjónar sendiráðið þar sex öðrum ríkjum, þ.e. Bólívíu, Kólumbíu, Kosta Ríka, Panama, Hondúras og Venesúela.
Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að Pétur muni koma til starfa í ráðuneytinu. Þar segir einnig að fleiri sendiherrar færi sig til frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Þórir Ibsen verður sendiherra í Peking . Hann leysir Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra af hólmi sem kemur til starfa í ráðuneytið. Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu, flyst á sama tíma í stöðu aðalræðismanns í New York, stöðunni sem Hlynur hefur gegnt undanfarin ár.
Guðni Bragason hefur verið settur sendiherra í Nýju Delhi en hann tók við því embætti 1. júlí síðastliðinn. Kristín A. Árnadóttir tók hans stað við stöðu fastafulltrúa í Vín frá 1. júní síðastliðnum.
Þá mun Matthías G. Pálsson flytjast í stöðu fastafulltrúa í Róm og leysir hann þar af hólmi Stefán Jón Hafstein sem flyst til starfa í ráðuneytið.
Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum um hvaða sendiherrar flytjast hvert.