„Við berjumst gegn þeirri ofbeldismenningu sem hefur verið við lýði alltof lengi og trúum að samfélagið allt vilji taka þátt í þeirri baráttu,“ segir í yfirlýsingu Bleika fílsins.
„Yfirlýsing þjóðhátíðarnefndar veitir von um að nú geti stórir hlutir farið að gerast í stað endalausra hænuskrefa.“
Þjóðhátíðarnefnd tilkynnti í stuttri yfirlýsingu í gær að Ingólfur Þórarinsson myndi ekki stýra Brekkusöngnum á sunnudeginum á Þjóðhátíð í ár. Sömuleiðis stóð til að hann myndi troða upp á laugardagskvöldinu og syngja þjóðhátíðarlag sitt frá því í fyrra. Af því verður ekki.
Meintir þolendur skuldi engum að stíga fram
Undanfarna daga hafa gengið sögur um meint kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu Ingólfs á samfélagsmiðlinum TikTok og víðar. Sögurnar birtust á TikTok reikningi hópsins Öfga en þær eru allar nafnlausar. Þar segir að meintir þolendur skuldi engum að stíga fram undir nafni.
Ingólfur heldur því fram fullum fetum að ekkert sé til í frásögnunum og sé kominn með lögfræðinga í málið. Þá sé hann afar ósáttur við ákvörðun þjóðhátíðarnefndar.

„Ég er ósáttur við það og ég mun bregðast við þessu af fullum þunga.“
Hörmuðu ákvörðun nefndarinnar
Bleiki fíllinn hafði gagnrýnt ákvörðun þjóðhátíðarnefndar í byrjun júlí að Ingólfur myndi sjá um brekkusönginn.
„Við í forvarnahópnum hörmum ákvörðun þjóðhátíðarnefndar. Við trúum þolendum og stöndum með þeim. Við erum að funda og munum senda frá okkur yfirlýsingu bráðlega,“ sagði á Facebook-síðu hópsins.
Engin yfirlýsing barst þó vegna málsins, fyrr en í gær þar sem hlutverk Bleika fílsins var áréttað.
Í fyrsta sinn langi fólk á Þjóðhátíð
Sísí Ástþórs, söngkona frá Vestmannaeyjum, er ein þeirra sem látið hefur í sér heyra vegna málsins.
„Ég sá status frá dæmdum nauðgara sem ætlar nú að skila þjóðhátíðarmiðanum sínum… vonandi gera hinir í stéttafélagi nauðgara slíkt hið sama, dalurinn mun ekki sakna ykkar,“ segir Sísí á Twitter og fær mikil viðbrögð.
Jóhanna Ýr Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Bleika fílsins, deildi færslu Sísi á Facebook og bætti við:
„Á sama tíma segja aðrir „í fyrsta sinn sem mig langar að kaupa miða á Þjóðhátíð“.“
Bleiki fíllinn hefur verið við störf í um áratug. Í þessari grein frá 2012 er saga og markmið hópsins rakin.