Upptökur sem vegfarandi nokkur tók af slagsmálunum eru komnar til lögreglunnar. Það staðfestir Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi við Vísi. Á upptökunni, sem fór í dreifingu í gær, mátti sjá hóp ungra pilta slást harkalega við Lækjartorg.
Þar ganga þrír þeirra harðast fram en þeir sjást meðal annars sparka í höfuð eins sem liggur í götunni.
„En ég veit ekki til þess að það hafi komið fram kærur í þessu. Þannig ég efast um að það sé byrjað að rannsaka þetta eitthvað,“ segir Guðmundur Pétur.
Spurður hvort lögreglan fari í sjálfstæða rannsókn á svona málum segir hann það erfitt á meðan engar kærur hafi komið fram og lögreglan hafi engar upplýsingar um hverjir eigi hlut að máli.
„Það er voðalega erfitt að gera það. Ekki nema við sjáum alveg verulega, verulega alvarlega líkamsárás. Auðvitað er þetta samt gróft,“ segir hann.
Hann minnist þess að svipað atvik hafi komið upp fyrir nokkrum vikum þar sem myndband af hrottalegri líkamsárás í miðbænum fór í dreifingu. DV fjallaði ítarlega um það mál á sínum tíma.
Guðmundur Pétur segir að ekkert hafi komið út úr því máli hjá lögreglu, enda hafi enginn látið hana vita af árásinni eða lagt fram kæru.