Þetta segir í tilkynningu á vef Smárabíós, sem rekur Barnaland í Smáralind. Barnalandi var lokað í kjölfar atviksins og verður áfram lokað þar til gengið hefur verið frá þessum breytingum. Þá segir að ástæða þess að stúlkunni tókst að komast úr gæslunni óséð hafi verið sú að læsing við hliðið að barnagæslunni virkaði ekki sem skyldi.
„Svo óheppilega vildi til að við innritun á öðrum börnum í Barnalandi á sama tíma urðu jafnframt þau mannlegu mistök að einu barni tókst að komast óséð í burtu fram hjá starfsmanni við innritunina og í framhaldi út fyrir gæslusvæðið,“ segir í tilkynningunni.
Lásnum á hliðinu verður jafnframt skipt út og verða þá verða merkingar í gæslunni yfirfærðar og betrumbættar og ferli við inn- og útritun breytt til að hindra að atvik á borð við þetta geti endurtekið sig.
Fara með málið til lögreglu
Hin fjögurra ára gamla Aníta hvarf eins og áður segir úr Barnalandi á sunnudag en foreldrar hennar voru að versla í Smáralind á meðan. Brynjar Þór Sigurðsson, faðir Anítu, greindi frá því í Facebook-færslu á mánudag að þau hjónin hafi greitt fyrir klukkustundarlanga pössun, farið að versla og snúið aftur klukkustund síðar til þess að leyfa dóttur sinni að verja hálftíma til viðbótar í barnagæslunni.
Þá hafi þau hjónin, Brynjar og Brynja H. Pétursdóttir, séð að skór dóttur þeirra voru ekki þar sem þeir áttu að vera og töldu fyrst að þeim hefði verið stolið. Svo reyndist ekki enda fannst stúlkan hvergi og starfsmenn vissu lítið um málið.
Aníta fannst að lokum við þjónustuborðið í Hagkaupum en til þess að komast þangað hafði hún þurft að fara með rúllustiga á milli hæða. Brynjar var afar ósáttur með viðbrögð starfsmanna Barnalands og kveður þá ekki hafa brugðist við hvarfi Anítu. Þá kallaði hann eftir því að barnagæslunni yrði lokað eða hún tekin í gegn.
Brynjar sagði í samtali við fréttastofu á mánudag að þau hjónin ætli að kæra atvikið til lögreglu og á hann tíma í skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna málsins.