Handbolti

Bjarki Már marka­hæstur á meðan Oddur og félagar misstu sigur niður í jafn­tefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már skoraði sjö mörk í kvöld.
Bjarki Már skoraði sjö mörk í kvöld. Axel Heimken/Getty Images

Bjarki Már Elísson var markahæstur í sigri Lemgo á Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Oddur Gretarsson og félagar hans í Balingen-Weilstetten gerðu á sama tíma jafntefli við Coburg 2000.

Lemgo vann öruggan átta marka sigur á Bergischer, lokatölur 31-23. Leikurinn hefði átt að vera uppgjör hornamanna íslenska landsliðsins en Arnór Þór Gunnarsson lék ekki með gestunum í kvöld. 

Bjarki Már var hins vegar á sínum stað í liði Lemgo og endaði markahæstur allra á vellinum með sjö mörk í heildina.

Coburg jafnaði metin gegn Balingen-Weilstetten í síðustu sókn leiksins sem þýðir að Oddur og félagar hans eru enn í bullandi fallbaráttu. Oddur skoraði eitt mark í 27-27 jafntefli liðanna í kvöld.

Lemgo er í 10. sæti deildarinnar með 35 stig. Balingen-Weilstetten er í 16. sæti með 25 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×