Umboðsmaður segir að kvörtun til hans verði að varða tiltekna athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds og beinist að eða hefur áhrif á hagsmuni þess sem kvartar.
Starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds er alla jafna ekki tekin til almennrar athugunar á grundvelli kvörtunar heldur verður umboðsmaður Alþingis sjálfur að ákveða að fara í frumkvæðisathugun á þeim.
Hann mun því ekki taka afstöðu til eða fjalla um þátttöku ráðherrans og yfirlögregluþjónsins í myndbandinu vegna kvörtunarinnar.
Kvörtuninni haldið til haga
Í svari við kvörtuninni sem umboðsmaður birti á heimasíðu sinni segir hann þó að henni verði verði haldið til haga, eins og öllum ábendingum sem berast embættinu, og það metið hvort tilefni sé til að taka atriði hennar til frumkvæðisathugunar.
„Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns,“ segir í svarinu.

Myndbandið fjarlægt
Myndbandið sem um ræðir var framleitt af hlaðvarpinu Eigin konur, sem þær Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir halda úti. Í því kom fram fjöldi frægra einstaklinga fram og lýsti yfir stuðningi við þolendur ofbeldis með orðunum „ég trúi“.
Meðal þeirra sem þar komu fram voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, en í kjölfarið vöknuðu spurningar um hvort eðlilegt væri að æðsti yfirmaður dómstóla og yfirmaður innan lögreglunnar tækju þátt í slíku myndbandi.
Í samtali við Vísi um miðjan síðasta mánuð sagði Áslaug að hún teldi það ekki mistök að hafa tekið þátt í myndbandinu. „Ég tók bara afstöðu með því að styðja þær vinkonur mínar og þolendur sem hafa stigið fram í að segja sína sögu,“ sagði hún.
Myndbandið var fjarlægt af YouTube skömmu eftir birtingu eftir að tveir einstaklingar sem komu fram í því lýstu því yfir að þeir hefðu farið yfir mörk kvenna. Það voru þeir Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar, og Pálmar Ragnarsson.