Þessar aðgerðir fela meðal annars í sér að hætta að fjármagna rekstur mengandi kolaorkuverka í fátækari löndum fyrir lok ársins og að varðveita þrjátíu prósent lands fyrir árið 2030. Samkomulagið er í takti við markmið Parísasáttmálans um að draga alfarið úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2050.
Umhverfisráðherrar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans, Kanada og Þýskalands komust að þessu samkomulagi í dag. Samkvæmt heimildum BBC eru forsvarsmenn ráðherrafundarins frekar ánægðir með niðurstöðu fundarins, sem fór fram á netinu.
Nokkrir aðrir fjarfundir milli ráðherranna verða haldnir þar til þeir hittast í Cornwall á Bretlandseyjum í næsta mánuði.
Í skjali sem blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir, þar sem niðurstöður fundarins eru tíundaðar, segir að mikilvægt sé að alþjóðasamfélagið hætti að fjárfesta í kolaorkuverum. Er þar sérstaklega minnst á kolaorkuver þar sem ekki er notast við tækni sem dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Tækni sem er ekki í mikilli notkun í orkuverum í dag.
Ráðherrarnir eru sagðir hafa orðið fyrir miklum áhrifum af nýlegri skýrslu frá Alþjóðaorkumálastofnuninni um að ef markmið Parísarsáttmálans ættu að nást mætti ekki reisa eitt orkuver sem keyrði á kolum, olíu eða gasi í framtíðinni.
Í áðurnefndu skjali kemur einnig fram að G7 ríkin ætla að fara fram á við forsvarsmenn annarra ríkja að samþykkja einnig þessar aðgerðir. Samkvæmt Reuters á það sérstaklega við Kína, sem brennir um helming þeirra kola sem brennd eru í heiminum.