Handbolti

Fücshe Berlin fór illa með Göppingen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Göppingen í dag.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Göppingen í dag. Jean Catuffe/Getty Images

Gunnar Steinn Jónsson og félagar hans í Göppingen heimsóttu Füchse Berlin í þýska handboltanum í dag. Füchse Berlin tók afgerandi forystu snemma leiks og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 34-27. Gunnar Steinn skoraði eitt mark fyrir gestina.

Útlitið varð fljótlega svart fyrir gestina í Göppingen, en Füchse Berlin skoraði sjö mörk gegn einu marki Göppingen í upphafi leiks.

Füchse Berlin náði mest níu marka forystu í fyrri hálfleik, og munurinn var átta mörk þegar flautað var til hálfleiks, staðan 19-11.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti, og fljótlega var munurinn orðinn 14 mörk, og brekkan orðin of brött fyrir gestina.

Göppingen náði að klóra aðeins í bakkann undir lok leiksins, en sigur Füchse Berlin var þó alrei í hættu. Lokatölur 34-27, heimamönnum í vil.

Göppingen er enn í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig eftir 29 leiki. Füchse Berlin er í því sjötta með þrem stigum minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×