Skoðun

Að­gerðir til að verjast upp­gangi skipu­lagðra glæpa­hópa

Karl Gauti Hjaltason skrifar

Umræða um uppgang skipulagðra glæpahópa hefur verið áberandi undanfarið. Hættan sem steðjar að þessari vá er þó ekki nýtilkomin og ábendingar hafa margítrekað komið frá lögreglu.

Alvarlegasta ógnin að náttúruhamförum frátöldum

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ritað ítarlegar skýrslur þar sem vaxandi áhættu er líst. Í síðustu skýrslunni, sem er frá 2019 segir: „Að náttúruhamförum frátöldum telur greiningardeild ríkislögreglustjóra skipulagða glæpastarfsemi alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi. Skipulögð glæpastarfsemi hefur áhrif á líf og heilsu fólks og samfélagið í heild …“ Skýrar er vart unnt að tala. Áhrif af starfsemi þessara hópa eru margvísleg og ekki öll augljós: „Áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi á samfélagið eru margvísleg og öll neikvæð. Það á við um tíðni afbrota, alvarleika þeirra, neikvæð áhrif á viðskiptalíf og vinnumarkað, þar á meðal skekkta samkeppnisstöðu og fjártjón fyrirtækja, tekjumissi hins opinbera auk þess sem skipulagðri brotastarfsemi fylgir ofbeldi sem verður til þess að draga almennt úr öryggi í samfélaginu.

Geta lögreglunnar

Niðurstaða greiningardeildarinnar er einnig sú að staða löggæslumála sé með þeim hætti að geta hennar til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi er mjög lítil. Benda þeir á ýmsar leiðir til að takast á við þessa ógn, nauðsynlegt sé að fjölga lögreglumönnum við rannsóknir á glæpum á þessu sviði en þarf að fjölga almennum lögreglumönnum svo unnt sé að sinna frumkvæðislöggæslu við afbrotavarnir, sem oft leiða til uppljóstrunar brota af þessu tagi.

Skýrslubeiðni um aðgerðir

Fyrir skömmu samþykkti Alþingi samhljóða beiðni mín um að dómsmálaráðherra skilaði skýrslu um uppgang skipulagðra glæpahópa á Íslandi og viðbrögð við því. Þar verði gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem hefur verið ráðist í og fyrirhugaðar eru til að vinna gegn uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Tilefnið er ærið að fá upplýst til hvaða úrræða hefur verið gripið í tilefni af viðvörunum greiningardeildarinnar, svo alvarlegar hafa þær verið.

Rannsóknarúrræði

Mikilvægt er að greint verði frá því hvort ábendingum greiningardeildar um rýmkuð rannsóknarúrræði lögreglu hafi verið tekin til skoðunar og þá tekið mið af því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þá þarf að upplýsa hvort aukin áhersla hafi verið lögð á farþegalistagreiningar við landamæraeftirlit og hvort til standi að auðvelda brottvísanir erlendra aðila sem verða uppvísir að afbrotum sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Misnotkun af margvíslegum toga

Í beiðninni er þess einnig óskað að upplýst verði hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að þeir sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og kúgunum af ýmsum toga svo sem mansali og hvaða aðgerðir eru áformaðar til að vinna gegn slíku. Loks verði greint frá því hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að glæpasamtök misnoti opinbera þjónustukerfið sem lið í skipulagðri starfsemi sinni. Þar er átt við bótakerfi, vinnumiðlun, móttökukerfi vegna flóttafólks og hælisleitenda og ýmsa félagslega aðstoð sem stendur þeim til boða.

Grípa þarf til aðgerða án tafar

Hér ræðir um bresti sem lögreglan telur að berja þurfi í svo takist að afstýra því að skipulögðum glæpahópum vaxi ásmegin hér á landi. Eftir líkani löggæsluáætlunar um fjögur áhættustig er það niðurstaða greiningardeildar að skipulögð glæpastarfsemi valdi „gífurlegri áhættu“ en það er alvarlegasta stigið. Því er ekki eftir neinu að bíða.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi lögreglustjóri.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×