Í nýrri skýrslu Rhodium Group, bandarísks greiningarfyrirtækis, kemur fram að losun Kína hafi meira en þrefaldast á undanförnum þremur áratugum. Losunin árið 2019 nam fjórtán milljörðum tonna af koltvísýringsígildum.
Bandaríkin, sem voru þar til nýlega stórtækasti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum, losaði næst mest eða 11% af heimslosuninni. Indland var í þriðja sæti með 6,6% losunarinnar. Mannkynið í heild losaði 52 milljarða tonna af koltvísýringsígildum árið 2019, um 11,4% aukning á einum áratug.
Kína er fjölmennasta ríki heims og þegar losunin er miðuð við höfðatölu eru Bandaríkin enn langt á undan. Rhodium Group segir að losun miðað við höfðatölu í Kína hafi einnig vaxið hröðum skrefum, þrefaldast á tveimur áratugum.
Kínverska kommúnistastjórnin hefur sagst ætla að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2060. Til að ná því markmiði muni losun ná hámarki sínu ekki síðar en árið 2030, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Þó er ljóst að Kínverjar þurfa að lyfta grettistaki til að svo megi verða en þeir eru afar háðir kolaorku, kolefnisfrekasta jarðefnaeldsneytinu. Í Kína eru 1.058 kolaorkuver, helmingur allra slíkra orkuvera í heiminum.
Ómögulegt er að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5-2°C á þessari öld nema að Kína og Bandaríkin komi sér saman um draga stórlega úr losun. Ríkin gáfu nýlega út sameiginlega yfirlýsingu um samstarf í loftslagsmálum í aðdraganda loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í Glasgow í Skotlandi í nóvember.