Það eru misvísandi skilaboð í gangi á úrslitasíðu Handknattleikssambands Íslands. KA/Þór og Fram eru jöfn að stigum á toppi Olís deildar kvenna fyrir lokaumferðina en heimasíða HSÍ er ekki sammála sjálfri sér í hvor þeirra sé í raun á toppnum.
Þegar smellt er á Olís deild kvenna í mótavef HSÍ þá má kemur upp yfirlit yfir næstu leiki og þar er einnig staðan í deildinni. Í þeirri stigatöflu situr Fram í efsta sætinu.

Þegar smellt er „Sjá meira“ kemst maður inn á mótið þar sem er hægt að sjá úrslit allra leikja. Þar er líka stigatafla deildarinnar en á henni er KA/Þór í toppsætinu.
Samkvæmt reglum HSÍ þá fer röð liða eftir innbyrðis leikjum ef liðin eru jöfn. KA/Þór vann fyrri leikinn á móti Fram og er því réttilega í efsta sætinu.
Framkonur eru aftur á móti með mun betri markatölu en KA/Þór konur og væru því í efsta sætinu ef farið væri eftir gömlu reglunum þar sem markatala réði röð liða ef þú væri jöfn.
Fyrir þá sem fara ekki alla leið inn á úrslitasíðu Olís deildar kvenna þá verða þeir að átta sig á því að staðan á opnunarsíðu mótsins er ekki rétt. Fram er ekki í efsta sætinu heldur KA/Þór.
Það þýðir að þegar Fram fær KA/Þór í heimsókn í lokaumferðinni um næstu helgi þá nægir KA/Þór jafntefli til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
