Pavlov var handtekinn í hótelherbergi í Moskvu en Moscow Times hefur eftir samstarfsmönnum hans að lögregluþjónar hafi brotið niður dyr íbúðar eiginkonu hans í St. Pétursborg og gert þar húsleit.
Ekki hefur verið gert ljóst hvaða upplýsingum Pavlov á að hafa lekið en hann tilheyrir hópi lögmanna og blaðamanna sem kallast Team 29. Meðlimir þessa hóps segjast berjast fyrir mannréttindum Rússa og frjálsum aðgangi þeirra að upplýsingum.
Pavlov átti að mæta í dómsal í dag vegna máls ríkisins gegn fyrrverandi blaðamanni sem hefur verið sakaður um landráð en hann hefur einnig starfað fyrir samtök stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní.
Samtökunum hefur verið lokað í kjölfar þess að saksóknarar kröfðust þess að lýsa eigi samtökin öfgasamtök. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin en dómari hefur bannað samtökunum að halda úti starfsemi sinni þar til ákvörðun liggur fyrir.
Fallist dómurinn á kröfuna gætu bandamenn Navalní átt yfir höfði sér þunga fangelsisdóma. Því tilkynnti bandamaður Navalnís að svæðisskrifstofum samtakanna yrði lokað. Þær skrifstofur hafa átt stóran þátt í skipulagningu viðburða og mótmæla um allt Rússland.
Undanfarna daga hafa borist fregnir af handtökum á blaðamönnum sem fjölluðu um mótmælin í Rússlandi í kjölfar handtöku Navalnís. Þá hafa yfirvöld í Rússlandi skilgreint sjálfstæða miðilinn Meduza sem útsendara erlendra aðila og miðillinn er nú sagður í miklum fjárhagsörðugleikum.