Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að fátt annað hafi verið í stöðunni en að biðja um frestun. Markvörðurinn Nicholas Satchwell og hornamaðurinn Allan Norðberg voru valdir í færeyska landsliðið. Annar markvörður liðsins, Svavar Ingi Sigmundsson, spilar svo ekki meira á leiktíðinni vegna meiðsla.
Það hefði því komið í hlut hins 19 ára gamla Bruno Bernat að spila næstu tvo leiki í marki KA, með engan varamarkvörð til taks á bekknum. Hvert stig skiptir KA máli en liðið er í 8. sæti, í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í sumar.
„Þetta var kannski ekki erfið ákvörðun. Nicholas markmaður var að fara að spila með Færeyingunum og Svavar er meiddur, búinn í aðgerð, og verður ekki meira með á leiktíðinni. Við hefðum aldrei spilað þessa leiki eingöngu með Bruno, ungan strák úr 3. flokki. Ef að eitthvað hefði komið fyrir hann hefðum við svo bara verið með útileikmann í markinu,“ sagði Sævar.
Leikjadagskrá KA í maí:
- 9. maí: ÍR - KA
- 13. maí: Afturelding - KA
- 16. maí: KA - ÍBV
- 20. maí: KA - FH
- 24. maí: Valur - KA
- 27. maí: KA - Þór
„Ef að Svavar hefði ekki verið meiddur og nýfarinn í aðgerð þá hefði þetta kannski litið öðruvísi út. Svo er Allan líka að fara í þessa landsleiki, þannig að þetta var aldrei vafi í okkar huga. Þetta kallar vissulega á strembið prógramm þegar menn fara aftur af stað en þetta eru bara þær aðstæður sem við búum við. Við tæklum þetta,“ sagði Sævar.