Skoðun

Það sem Njáll sagði ykkur ekki

Inga Lind Karlsdóttir skrifar

Í síðustu viku birtist í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, grein sem hljómaði eins og hún hefði verið skrifuð á skrifstofu Fiskeldis Austfjarða við Nesbala á Seltjarnarnesi, svo laus voru skrifin við gagnrýni og fyrirvara um laxeldi í opnum sjókvíum. Flokkast sú starfsemi þó opinberlega sem mengandi iðnaður og gert er sérstakt áhættumat um hversu mikinn skaða á lífríkinu stjórnvöldum þykir ásættanlegt að hún valdi. Takið eftir, matið er ekki hvort sjókvíaeldi veldur skaða, heldur hversu miklum.

Höfundur greinarinnar var hins vegar ekki upplýsingafulltrúi sjókvíaeldisfyrirtækis heldur Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í norðausturkjördæmi. Skoðum nú það sem Njáll Trausti kaus að segja lesendum Markaðarins ekki.

Meint atvinnusköpun

Fjöldi starfa sem Njáll hélt á lofti í grein sinni er tálsýn. Störfin verða alltaf miklu færri en var lofað og eru þar að auki ekki í nokkru hlutfalli við vöxt þeirra tonna af eldislaxi sem er settur út í sjókvíarnar. Sú saga er til og hefur verið færð til bókar. Þannig störfuðu árið 1987 um fjögur þúsund manns við sjókvíaeldi í Noregi þegar ársframleiðslan var um 46 þúsund tonn af laxi. Árið 2018 hafði framleiðslan 28-faldast, var komin í 1,3 milljónir tonna, en störfin þó aðeins helmingi fleiri en þrjátíu árum áður.

Stórum hluta af þessum störfum sinnir svo erlent farandverkarfólk á lágmarkslaunum því í Noregi er sama upp á teningnum og hefur verið hér um árabil í landvinnslu sjávarútvegarins þar sem yfir helmingur er erlent starfsfólk. Heimafólk er upp til hópa lítið áhugasamt um þau störf og kjör sem eru í boði í þessum geirum.

Hröð fækkun starfa framundan

Störfum hefur þannig verið að fækka jafnt og þétt sem hlutfall af framleiðslumagni í sjókvíaeldi á laxi. Rétt eins og í sjávarútveginum er tækniþróunin hröð. Við Íslendingar þekkjum þá sögu vel. Einn frystitogari dekkar nú veiðar og vinnslu sem áður var sinnt af nokkrum skipum og frystihúsum á landi.

Og það er fyrirsjánlegt að störfum í kringum sjókvíaeldi mun fækka enn hraðar á allra næstu árum. Stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, Mowi, boðaði nánast byltingu í þeim efnum í viðamikilli kynningu sem það sendi frá sér fyrr á árinu um leið og það sagði frá niðurskurði sem hafinn er á starfsliði fyrirtækisins.

Rétt eins og í svo mörgum öðrum geirum mun hugbúnaður, knúinn áfram af gervigreind, vélanám (machine learning) og sjálfvirknivæðing sjá til þess að mannshöndin mun ekki koma við sögu í fjölmörgum verkum í þessum iðnaði innan skamms.

Reyndar liggur nú þegar fyrir að stórum hluta af störfum, sem áður þurfti að sinna á staðnum, er fjarstýrt af fólki sem situr við tölvuskjái. Fiskeldi Austfjarða kynnti til dæmis árið 2018 áætlanir um að fjarstýra fóðrun eldislaxa í austfirskum fjörðum frá Noregi (þar sem móðurfélagið er staðsett), en hætti svo við, enda hefði annars horfið gulrótin sem fyrirtækið dinglar framan í sveitarstjórnarfólkið og aðra bláeyga stjórnmálamenn um að þessi iðnaður snúist um að skapa störf fyrir íbúa í sjávarbyggðum.

Engin ástæða er til að efast um að um leið og öll tiltæk leyfi eru í höfn, mun þessum áformum verða hrint í framkvæmd og gott betur. Líklega þarf ekki einu sinni fólk við skjáina miðað við framtíðarsýnina sem forstjóri Mowi boðaði í kynningu sinni. Þau sem enn trúa á framtíðarstörf fyrir sjávarbyggðir ættu að lesa hana.

Meint verðmætasköpun

Njáll Trausti sleppti líka að minnast á að sjókvíaeldi er bein atlaga að miklum verðmætum sem eru nú þegar til staðar í landinu. Alls eiga um 4.500 lögbýli veiðirétt (samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands) og eru tekjur af veiðihlunnindum ein meginstoð búsetu í dreifbýli á Íslandi. Þegar horft til landsins alls standa þessar tekjur undir 28 prósent af hagnaði og launakostnaði í landbúnaði. Í kjördæmi Njáls er þetta hlutfall vel yfir landsmeðaltalinu eða 34% á Austurlandi.

Sleppifiskur í sjókvíaeldi er bein ógn við þessi verðmæti. Hætta er á að þær fjölskyldur sem missa tekjur af stangveiði muni þurfa að bregða búi.

Skaðsemi sjókvíaeldisins teygir sig líka til strandbyggða. Þannig kemur fram í nýrri viðamikil skoskri rannsókn að verð fasteigna, þaðan sem sést í laxeldissjókvíar við vesturströnd Skotlands, er 3,6 milljón krónum lægra að jafnaði en sambærilegra eigna þar sem ekki sést í kvíar. Engin ástæða er til að efast um að þróunin verði eins hér.

Njáll nefndi meintar gjaldeyristekjur sem fiskeldið skapar. Þar lét hann þess ógetið hvað fer út úr landinu af gjaldeyri vegna þessarar starfsemi. Óljóst er hver raunverulegur virðisauki er fyrir þjóðina því sjókvíaeldisfyrirtækin eru yfir 90% í eigu alþjóðlegra fiskeldisrisa, sem selja þessum dótturfélögum sínum búnað, fóður, ráðgjöf og lána þeim fé. Þannig er til dæmis stærsti eigandi Arctic Sea Farm, sem er með sjókvíaeldi á Vestfjörðum, skráður á Kýpur, þeirri þekktu skattaparadís.

Skammtímagróði fárra

Hver hvatinn er og hagsmunir hverra eru í húfi liggur liggur skýrt fyrir. Árið 2017 keypti norska fiskeldisfyrirtækið NTS 45 prósent hlut í Fiskeldi Austfjarða af öðru norsku fyrirtæki, MNH Holding, og greiddi fyrir hlutinn sem nemur 965 milljónum íslenskra króna. Sú upphæð mun hins vegar hækka í 3,9 milljarða króna, ef Fiskeldi Austfjarða fær tiltekin leyfi til aukinnar framleiðslu innan tíu ára frá undirritun kaupsamningsins.

Þarna liggur laxinn grafinn. Örfáir einstaklingar hafa nú þegar auðgast feikilega á kaupum og sölu á hlutum í sjókvíaeldisfyrirtækjunum, sem vel að merkja hafa aldrei greitt krónu í tekjuskatt hér á landi og munu ekki gera á næstu árum, uppsafnað tap þeirra er svo gríðarlegt.

Hamagangurinn við að þrýsta í gegn nýjum leyfum fyrir sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum snýst þannig um skammtímagróða fárra en ekki langtímahagsmuni margra.

Höfundur situr í stjórn Íslenska náttúruverndarsjóðsins - The Icelandic Wildlife Fund.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×