Engin reyndist smitaður innanlands síðasta sólahring en fimm á landamærum. Tveir eru á spítala annar á gjörgæslu. Maðurinn sem liggur á gjörgæsludeildinni er um sjötugt og kom hingað með flugvél sem neyddist til að lenda í Keflavík vegna veikinda hans.
90 hafa smitast innanlands af breska afbrigði kórónuveirunnar síðustu þrjár vikur þar af voru 27 utan sóttkvíar.Reynslan hjá öðrum löndum hefur verið að um 10% þeirra sem fá breska afbrigðið hafa þurft að leggjast inn á spítala. Það hefur ekki gerst hér. Alma Möller landlæknir segir einkum tvær skýringar koma til greina.
„Það var mjög ungt fólk að smitast núna og síðan er Covid-göngudeildin alltaf að efla sína getu í að meðhöndla fólk utan sjúkrahúss. Þetta eru líklegustu skýringarnar á því að fleiri hafi ekki lagst inn. Þetta er afar jákvætt fyrir heilbrigðiskerfið því við vorum alveg í viðbragðsstöðu þegar breska afbrigðið greindist hér fyrst. Vonandi verður framhaldið með þessum hætti líka segir Alma,“.