Skoðun

Réttarríki á tímum Covid-19

Berglind Svavarsdóttir skrifar

Í réttarríkishugtakinu í sínum víðasta skilningi felst að samfélög skuli lúta sameiginlegum og almennum lögum sem skuli gilda jafnt um valdhafana sem aðra og séu ekki byggð á geðþóttavaldi. Lögin verða að vera framkvæmanleg, skiljanleg, aðgengileg, framvirk og almenn. Þá verður að tryggja aðgengi borgaranna að réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum.

Vegna Covid-19 faraldursins hafa ríki um allan heim gripið til ýmissa aðgerða til að hægja á útbreiðslu veirunnar og til að tryggja heilsu og öryggi almennings. Þær aðgerðir hafa í mörgum tilvikum varðað veruleg inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna en viðurkennt er að heildarhagsmunir kunni í vissum tilvikum að ganga framar einstaklingshagsmunum. Þrátt fyrir það gildir sú grundvallarregla í réttarríki að þær ráðstafanir sem stjórnvöld grípa til verða eftir sem áður að rúmast innan ramma laganna og þær verða að vera gegnsæjar og tímabundnar.Þá þarf auk þess að uppfylla almennar kröfur um nauðsyn og meðalhóf. Öryggi almennings verður þannig best tryggt í lýðræðisríkjum þar sem reglur réttarríkisins eru í heiðri hafðar.

Nýlega voru kveðnir upp úrskurðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í málum þar sem niðurstaðan var sú að ákvæði reglugerðar stjórnvalda um skyldusóttkví skorti lagastoð og ákvarðanir sóttvarnaryfirvalda hefðu þar af leiðandi gengið lengra en heimilt var samkvæmt lögum. Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda og aðila innan heilbrigðiskerfisins við niðurstöðu dómstólsins hafa um margt verið sérstök og umræðan þeim ekki til framdráttar. Þau viðbrögð undirstrika enn frekar nauðsyn hlutverks lögmanna og dómstóla, sem er að standa vörð um réttarríkið. Mannréttindi, lýðræði og réttarríki eru hvorki léttvæg né innantóm hugtök, þau skipta máli og aldrei eins miklu máli og þegar ógn steðjar að.

Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið eru ekki andstæða við vernd og öryggi almennings, heldur trygging fyrir því að almenningur njóti verndar og öryggis.

Höfundur er formaður Lögmannafélag Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×