„Þetta eru alltaf sömu karlarnir, í tíu-tuttugu ár. Það hættir enginn,“ segir Sturla Þórðarson skipstjóri í þættinum Um land allt á Stöð 2. Þar er fylgst með loðnuveiðum þar sem skipin eru í mokfiskeríi í norðanverðum Faxaflóa á síðustu dögum vertíðarinnar.

Tveir eru um hvert pláss. Sjómennirnir vinna í skiptikerfi, vinna bara hálft árið, en hafa samt góðar tekjur. Þetta eru raunar einhver eftirsóttustu plássin í fiskveiðiflotanum.
„Þetta þykja mjög góð pláss á þessum uppsjávarskipum. Það er bara þannig,“ segir Víðir Pálsson háseti, sem er að verða fimmtugur en hann byrjaði sextán ára gamall á sjó.

„Við erum með gott skip og góðan aðbúnað,“ segir Helgi Freyr Ólason, sem er búinn að vera sjómaður í fimmtán ár.
„Þetta er það öflugasta á Íslandi, það stærsta,“ segir Guðjón Sveinsson, fyrsti vélstjóri, um fiskiskipið en tveir vélstjórar eru ávallt um borð í hverri ferð.

„Við komum með stærstu farmana, getum komið með 3.200 tonn í einni ferð. Getum verið að punda út á skrúfu tíu þúsund hestöflum, með aðalvél og svo ljósavél inn á líka,“ segir vélstjórinn.

„Það eru allir rosagóðir vinir hérna. Það skiptir ekki máli hvað gengur á hérna. Það er alltaf sama stemmningin, sko. Þeir eru kátir hérna,“ segir Herbert Jónsson yfirstýrimaður.
Hér má sjá sex mínútna myndskeið úr þættinum: