Leikurinn kvöldsins var svo gott sem búinn í hálfleik en gestirnir frá Akureyri voru þá með átta marka forystu, staðan 15-7. Heimastúlkur klóruðu í bakkann í síðari hálfleik en munurinn var of mikill og topplið KA/Þórs fór á endanum með öruggan sigur af hólmi.
Lokatölur í Kórnum í kvöld 29-23 KA/Þór í vil og liðið er því komið á topp deildarinnar á nýjan leik. Akureyringar eru með 19 stig í fyrsta sæti á meðan Fram er sæti neðar með 18 stig. HK er svo í sjöunda sæti með níu stig.
Rut Jónsdóttir var markahæst í liði gestanna með níu mörk. Þar á eftir kom Aldís Ásta Heimisdóttir með átta mörk. Hjá HK var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir markahæst með sex mörk.