Það voru ekki aðeins tvö stig í boði fyrir kvennalið ÍBV á Hlíðarenda um helgina. Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV-liðsins, veðjaði við stelpurnar sínar með góðum árangri, fyrir þær en kannski ekki fyrir hann.
Sigurður hefði fengið að raka augnabrúnirnar á tveimur leikmönnum liðsins ef að þær hefðu tapað á móti Val en með því að vinna leikinn þá fá Eyjastelpurnar að gera útlitsbreytingu á þjálfara sínum.
Sigurður lýsti leik ÍBV og ÍR á ÍBV TV í gær og sagði þar frá þessu skemmtilega veðmáli sem hann tapaði á laugardaginn.
„Ég þarf núna að vera með eyrnalokk í viku. Eða ég þarf að vera með demant í eyranu í viku,“ sagði Sigurður Bragason á ÍBV TV.
„Demanturinn fer í eyrað mitt á æfingu hjá stelpunum á morgun,“ sagði Sigurður og það eru Eyjastelpurnar sjálfar sem fá það verkefni að gata hann.
„Það er einhver ein sem er einhver sérfræðingur í þessu,“ sagði Sigurður.
„Ég lagði það undir í leiknum á móti Val að þær mættu setja eyrnalokk í mig eða þá að ég mætti raka í augabrýrnar hjá Kristrúnu og Hörpu. Þær unnu það þannig að ég þarf bara að vera með eyrnalokk,“ sagði Sigurður Bragason á ÍBV TV.
Leikmennirnir eru þær Kristrún Ósk Hlynsdóttir og Harpa Valey Gylfadóttir, tvær af uppöldu leikmönnum Eyjaliðsins.
ÍBV vann 20-19 sigur á Val á laugardaginn og komust þar með upp fyrir Valskonur og alla leið í þriðja sætið. Eyjakonur töpuðu tveimur fyrstu leikjum sínum í febrúar á móti Haukum og KA/Þór en hafa nú unnið tvo síðustu leiki sína. Næti leikur er á móti Fram í Vestmannaeyjum um næstu helgi.